Um Tryggva
Ég er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í norðausturkjördæmi og prófessor í þjóðhagfræði við Háskólann í Reykjavík (í leyfi). Frá kosningum 2009 hef ég setið fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í atvinnumálanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og nú síðast í allsherja- og menntamálanefnd. Jafnframt sit ég í þrem sérnefndum fyrir hönd þingflokksins: gjaldeyrishaftanefnd, veiðigjaldanefnd og nefnd um hagræðingu og þróun háskólastigsins.
Ég var sérstakur efnahagsráðgjafi forsætisráðherra um tveggja og hálfs mánaðar skeið í bankahruninu haustið 2008. Þar áður var ég forstjóri fjárfestingabankans Askar Capita, var forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands 1995 til 2006 og lektor, dósent og síðast prófessor í þjóðhagfræði við hagfræðideild Háskóla Íslands á sama tímabili.
Ég hef setið í og stýrt mörgum ráðherraskipuðum nefndum, verið ráðgjafi einkafyrirtækja, hagsmunasamtaka, banka, seðlabanka og lífeyrissjóða bæði innan lands og utan. Þá hef ég verið ráðgjafi nokkurra alþjóðastofnana, m.a. Alþjóðabankans, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, Norrænu ráðherranefndarinnar, Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), Evrópusambandsins, World Economic Forum og ríkistjórna.
Ég hef birt yfir 50 rannsóknarritgerðir, verið ritstjóri, höfundur og meðhöfundur 13 bóka og smárita (monographs) og skrifaða fjölda blaðagreina um margvísleg málefni í hagfræði. Ég er doktor í hagfræði frá Háskólanum í Árósum og fjallaði doktorsritgerð mín um hagvaxtarfræði með áherslu á mannauð, hagstórn og auðlindanýtingu. Rannsóknir mínar hafa að mestu verið á sviði hagstjórnar, fjármálamarkaða, peningamálahagfræði og lífeyrissjóða. Í embætti forstöðumanns Hagfræðistofnunar stjórnaði ég yfir 100 rannsóknarverkefnum víða um lönd á ýmsum sviðum hagfræðinnar.
Ég á fjögur börn: Mist, Halldór Reyni, Veigar og Önnu Ragnheiði. Ég er fæddur og uppalinn á Neskaupstað og er giftur Sigurveigu Ingvadóttir sem er fædd og uppalin á Eskifirði.